Umhverfisstefna

SPJARA er sprottin af hugsjón um að geta notið tísku án þess að auka á mengunarvandann sem iðnaðurinn veldur. Tíska er tjáningarform sem við notum til að líða vel, auka sjálfstraustið og skapa ímynd okkar -  hún á að efla okkur en ekki valda skaða!

Sannleikurinn er hins vegar sá að engin fatakaup eru 100% vistvæn. Það besta fyrir umhverfið er að klæðast flík sem hangir nú þegar í fataskápnum þínum - en SPJARA ætlar sér að vera næstbesti kosturinn!

SPJARA er drifin áfram af sýn þar sem hraðtíska heyrir sögunni til. Við trúum að hringrásarhugsun geti spilað stóran þátt í að gera tísku framtíðarinnar bæði sjálfbærari og skemmtilegri. Fataleiga getur verið hluti af lausninni en þá aðeins ef hún er rekin með umhverfissjónarmið í fyrirrúmi, og þess vegna ætlum við að leggja okkar af mörkum:

  • Við drögum úr þörfinni til að kaupa nýtt með því að bjóða upp á föt til útleigu frekar en eigu.
  • Við lengjum líftíma fatnaðar með því að bjóða fleirum en eigandanum að njóta hans. Við vöndum meðferð og vörslu á fatnaði og gerum við skemmdir.
  • Við gufuhreinsum eða handþvoum flíkur með mildum sápum til þess að tryggja fullnægjandi hreinsun sem veldur sem minnstu hnjaski.
  • Við felum ekki sannleikann og sofnum ekki á verðinum: við vitum að við getum og ætlum að halda áfram að gera betur. 

 

Hvaða áherslur myndir þú vilja sjá? Sendið okkur ábendingu á hello@spjara.is!